Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 13:47:33 (3862)

[13:47]
     Stefán Guðmundsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þegar við mættum í morgun á tilsettum tíma til þingstarfa til þess að vinna eftir auglýstri dagskrá þingsins tilkynnti forseti það úr ræðustól að því miður væri ekki hægt að vinna eftir ákveðinni dagskrá í dag vegna þess að það skorti á að þingmenn mættu til starfa. Ég veitti því þá athygli að það vantaði yfirgnæfandi meiri hluta af þingmönnum stjórnarliðsins. Þá ákvað forseti að fresta þessum lið og ganga til dagskrár og taka fyrir annað mál. Nú bregður svo við að nýju þegar á að ganga til atkvæðagreiðslu að enn skortir á að það sé hægt að ganga að eðlilegum þingstörfum og enn eru það stjórnarliðar, þingmenn Alþfl. og Sjálfstfl., sem skortir í þinghúsið til þess að eðlileg þingstörf fari fram. Aðeins einn ráðherra hefur verið í allan morgun til þess að vera við umræður. Það er aðeins einn ráðherra enn í þessu húsi, virðulegur forseti, og ég held að það sé því orðið tímabært að menn fari yfir þessi mál og láti ekki þá sem ætíð ganga til þingstarfa gjalda fyrir hina.