Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:26:10 (3925)



[15:26]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er mjög nauðsynlegt að taka á skattamálum og skattundandrætti af hvaða toga sem er í þjóðfélaginu og á að sjálfsögðu einnig við um þetta afmarkaða mál án þess að með því sé verið að segja á nokkurn hátt að þessi grein eða þessi starfsemi liggi undir grun öðrum fremur. Ég hygg hins

vegar að það sé almannarómur og vitað að það er ákveðinn feluleikur í gagni með þau verð sem gefin eru upp og það er oft tekið til marks um það að þarna sé ekki öllu til skila haldið varðandi skattframtöl. Ég hygg hins vegar að þessi atvinnugrein sé ekki sá gróðavegur að það sé yfirleitt ástæða til að óttast að menn lendi í stórkostlega skattskyldum hagnaði þó að þeir tíundi þann afmarkaða hluta teknanna sem búin sum hver hafa af einhverjum útflutningi hrossa.
    Hinu ber að fagna að þetta er atvinnugrein sem er að blómstra eins og tölur sem hæstv. fjmrh. nefndi bera með sér og ég hygg reyndar að síðan væri ekki síður ástæða til að taka á ýmsum skipulagsmálum sem varða þennan útflutning heldur en þeim þætti sem hér var sérstaklega gerður að umtalsefni.