Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 19:00:04 (3983)

[18:59]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er spurningin um tímann í þessu. Ég vil ekki telja að um sé að ræða áratug. Ég giska á að ef menn tækju stefnuna nú á strandleiðina með jarðgangagerð milli Héraðs og Vopnafjarðar sem væru þá fyrstu jarðgöngin sem væru byggð á Austurlandi ef þetta væri niðurstaðan, þá séu þetta svona 5--6 ár sem gæti munað á tíma í þessu. Ég held að það þyrfti ekki að fara yfir það.
    En varðandi snjóþyngslin met ég það svo að snjóléttasta leiðin á þessu væri sú sem þræddi ströndina hvað mest. Ég tel að næst komi leið þar sem heiðarnar væru, þessar sem færu í 250--300 metra en vísa þó til þess að menn hafa hinn möguleikann uppi, a.m.k. varðandi Sléttuna og auðvitað þyrfti að koma til uppbygging út fyrir Tjörnes ef það ætti að vera örugg tenging og í þriðja þætti væru Fjöllin. Ef litið er til veðurfars, veðurhæðar, skafrennings og annarra slíkra aðstæðna, þá tel ég að Fjöllin séu í þriðja sæti örugglega og bendi á það að ráðgerð tenging austan Möðrudalsfjallgarða sem ég tel þó að eigi að vera fyllilega til álita og er kannski upphafsmaður að að benda á 1974 þegar ég ræddi það við þingmenn Austurlands á þeim tíma að sú leið yrði könnuð austan fjallgarða um norðanverða Jökuldalsheiði, þar eru meiri snjóþyngsli en í Möðrudalnum sjálfum og trúlega meiri skafrenningur og veðurhæð í norðaustanátt en ef núverandi leið um fjallgarða væri farin. En þetta er svona álitamál. Ég held að ég hafi svarað spurningum hv. þm.