Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 19:08:38 (3987)


[19:08]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki greinir okkur hv. 4. þm. Norðurl. v. á um þetta. Það er tímabært að þarna verði breyting á. Það er rétt að þessi mál voru til umræðu í sambandi við langtímaáætlun hinnar síðustu þegar hún var í deiglu og átti ég hlut að því máli. Þá skildum við Austfirðingar við það enn þá opið hvaða leið nákvæmlega yrði valin en hins vegar vikið að því í gerð langtímaáætlunar. Það er síðan um 1990 sem einhverjar alvöruathuganir fara af stað um það hvaða leið skuli valin og enn eru menn að velta málinu fyrir sér þó að það vísi á það að mér sýnist að meiri hluti verði fyrir því að taka þessa fjallaleið þó að ég hafi verið að ýta öðrum áherslum fram, þá verður það meiri hlutinn sem ræður í þessu efni. Mér er sárast um jarðgöngin. Ég hef séð þau dragast milli Héraðs og Vopnafjarðar ef strandleið verður þarna út undan og ekki litið til annars en ársvegar því að rökin fyrir þeirri stóru framkvæmd væru öflugri og skýrari ef það væri liður í vetrartengingu milli landshluta.