Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 14:52:19 (4107)


[14:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef einhver hefur ráðist á einhverja með ómaklegum tilburðum er það auðvitað hv. þm. Björn Bjarnason. Það er það sem er kveikjan að þessari umræðu. Ég á ekki von á því að nokkur maður hefði í umræðunni nennt að eyða orðum að því sem hv. þm. tók hér upp, það hefði ég a.m.k. ekki gert og væntanlega ekki aðrir, ekki formaður Alþb. sem hér talaði fyrr í umræðunni, ef ekki hefðu komið til þessi óvenjulega rætnu og lágkúrulegu ummæli sem hv. þm. gerði að sínum og setti í það samhengi í ræðu sinni að ekki varð annað ráðið af því samhengi en að hann væri að tala um hv. þm. Hjörleif Guttormsson og Svavar Gestsson. Ég spyr hv. þm. Björn Bjarnason: Er hann maður til þess að fara út í þjóðfélagið og segja það þar að Hjörleifur Guttormsson og Svavar Gestsson þurfi að gera grein fyrir Stasi-tengslum sínum? Það var það sem hv. þm. sagði, samanber samhengið í hans ræðu. Nú sé ég að hv. þm. er kominn á flótta, er farinn að draga í land. (Gripið fram í.) Þetta voru tengslin og uppbyggingin í ræðu hv. þm. Ekki var hægt að skilja hana öðruvísi en svo að hv. þm væri að reyna að læða þessu inn í þingtíðindin og þingsalina. Ég held að hv. þm. ætti að vera maður til þess að koma hér upp og draga þetta til baka, segja að það sé rangur skilningur á orðum hans og biðjast afsökunar í leiðinni hvernig hann hagaði málum sínum hér fyrr í morgun. Hv. þm. er það að sjálfsögðu frjálst og það væri fagnaðarefni ef hann vildi sjá að sér en meðan þetta hangir svona í loftinu þá er ekki hægt að hafa um það önnur orð en að þetta voru ómerkileg, lágkúruleg og auðvitað algjörlega fráleit ummæli og framganga af hálfu hv. þm., honum til stórkostlegrar skammar og er þá mikið sagt.