Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 15:30:14 (4113)


[15:30]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er að verða broslegt hvernig hv. þm. hleypur úr einu víginu af öðru og býr sér til söguskoðun og söguskýringar sem eiga ekki nokkuð skylt við veruleikann. Ástæður fyrir því að við vorum að gangast eftir því í Alþb. að ekki væri verið að reyna að fara fram hjá samþykktum flokksins sýndu að sjálfsögðu að okkur var alvara. Þess vegna var gengið til verka eins og um ræðir. Ástæðan fyrir því að formaður Alþb. lagði allar gerðabækur flokksins fram á sínum tíma voru að sjálfsögðu svör við dylgjum frá aðilum eins og hv. 3. þm. Reykv. og öðrum sem stöðugt hafa verið að klifa á því að Alþb. hefði eitthvað að fela í þessum efnum. Það hefur enginn stjórnmálaflokkur gert hreint fyrir sínum dyrum með þeim hætti sem Alþb. gerði með því að opna sínar gerðabækur og leggja allt á borðið og það hefur enginn gengið jafnhart gagnvart sínum meðlimum um það nánast að setja á þá hömlur varðandi ferðafrelsi og það þótti auðvitað sumum svolítið hart undir að búa. Það var skiljanlegt út af fyrir sig. En það var pólitísk nauðsyn á því fyrir Alþb. og ég taldi mig vita að þörf væri á því að standa vörð um það og gæta þess að ekki væri reynt að hafa áhrif bakdyramegin inn í flokkinn. Og ég taldi mig ekki minni mann að reyna að hafa áhrif á það og koma í veg fyrir að það gerðist og ég tel að það hafi haft mikla þýðingu fyrir þróun íslenskra stjórnmála hvernig Alþb. brást við þegar fyrir lok sjöunda áratugsins í sambandi við utanríkissamskiptin.