Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:41:13 (4165)


[15:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þegar núverandi Fagranes var keypt á sínum tíma til landsins 1991 held ég að megi segja að tilgangurinn með því hafi verið þríþættur. Það er í fyrsta lagi sem samgöngutæki, það er í öðru lagi sem öryggistæki fyrir þetta svæði og það var í þriðja lagi vegna mikilvægis þess í vaxandi ferðaþjónustu á svæðinu og samskipta við þjóðgarðinn á Hornströndum og eyðibyggðir þar á sumrin. Öllum þessum þremur markmiðum átti skipið að þjóna. Það vildi hins vegar svo til að í boði var einstaklega ódýrt og gott skip sem ofan í kaupið var ekjuskip en gagnvart þeirri ákvörðun sem tekin var á sínum tíma þá var það aldrei neitt aðalatriði þess máls heldur fylgdi það einfaldlega með í kaupunum að skipið var þannig útbúið. En það var ekki keypt gagngert vegna þess að um ekjuskip væri að ræða og verkefnin sem því var þá ætlað að þjóna voru fyrst og fremst annars eðlis. Þetta finnst mér að þurfi að koma fram til þess að ekki sé verið að blanda hugmyndum sem síðan komu eðlilega upp um að nýta þessa möguleika skipsins inn í þessa ákvarðanatöku.
    Aðalatriði málsins finnst mér vera að þetta skip eða annað sambærilegt þarf að vera til staðar á þessu svæði. Ég hef engin rök séð sem breyta þeirri sannfæringu minni að mikilvægt sé af samgönguástæðum vegna öryggis og líka vegna þessa hlutverks í ferðaþjónustu að skip af þessu tagi séu á svæðinu. Að öðru leyti hef ég ekki aðstæður eða forsendur til að tjá mig um þær hugmyndir sem þarna eru núna uppi en finnst þó í aðalatriðum að það sé illt ef tilvist skipsins á svæðinu þarf að vera að blandast inn í að öðru leyti sjálfsagða baráttu og eðlilega baráttu Vestfirðinga fyrir því að fá sínar samgöngur á landi bættar.