Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:49:41 (4169)


[15:49]
     Stefán Guðmundsson :

    Virðulegi forseti. Ég fagna að mörgu leyti þeirri umræðu sem hér fer fram þó að ég hefði kosið að hún hefði farið fram á nokkuð öðrum nótum, en við erum hér að ræða um það hvernig tryggja megi samgöngur til og um Vestfirði.
    Það hefur komið fram að nú við gerð nýrrar vegáætlunar er gert ráð fyrir því að Djúpvegur verði tekinn inn sem sérstakt stórverkefni. Ef ég man rétt þá eru áætlaðar kostnaðartölur um að byggja upp Djúpveginn rétt um 1,2 milljarða kr.
    Úr því að ég er kominn hér og við eru að ræða um samgöngur um Vestfirði vildi ég nota tækifærið og spyrja hæstv. samgrh. hvort við sem höfum áhuga fyrir bættum samgöngum til og um Vestfirði megum ekki reikna með því að við þau áform verði staðið að Gilsfjarðarbrú verði boðin út á þessu ári. Það þarf ekki mikið málæði í kringum þetta, já eða nei, þannig að þingheimur og þeir sem við eiga að búa skilji.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja við ágæta þingmenn Vestfjarðakjördæmis: númer eitt, tvö og þrjú til þess að ná árangri í þessu máli er að þingmenn Vestfirðinga tali saman, leiði Vestfirðinga að sameiginlegri niðurstöðu í samgöngumálum síns kjördæmis. Það er verðugasta verkefnið sem þingmenn Vestfirðinga eiga í þessu að fara fyrir þeim hópi manna sem vill Vestfjörðum vel og ná ákveðinni sátt um hvernig að þessu málum er staðið. Ég hef trú á því eftir að hafa kynnst þingmönnum og hug þingmanna til samgöngumála að hann standi til þess að bæta úr ástandi þessara mála á Vestfjörðum.