Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 23:37:41 (4285)


[23:37]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég held að enginn efist um vilja og getu hæstv. forseta að sitja yfir ræðum þingmanna. Hins vegar gætu kannski einhverjir aðrir sem hér eru staddir haft meiri áhuga á því að hvílast fyrir morgundaginn en hæstv. forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég tel að það væri ekki heppilegt að menn vektu alla nóttina vegna þeirra starfa sem þeir þurfa að fara til að morgni og mér finnst að hæstv. forseti tali í hálfgerðum hálfkæringi um störf þingsins. Ég verð að segja alveg eins og er að þó að sex þingmenn séu búnir að tala hér get ég enga grein gert mér fyrir því hve langan tíma tekur að hlusta á þær sex ræður sem eftir eru fyrir utan það að ég býst við að einhverjir bætist á

mælendaskrána. Ef við miðum við næstsíðustu ræðu sem hér var haldin þá mundum við þurfa líklega rúman sólarhring til að hlusta á þær sex ræður sem eftir eru. Ég er því hræddur um að önnur störf þingsins færu þá að víkja illilega fyrir þeim fundi sem nú stendur. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að þetta hafi kannski ekki svo mikinn tilgang þegar mál fara að dragast með þessum hætti. Því miður er ekki mjög fjölmennt í þinginu núna til þess að hlýða á ræður þeirra sex þingmanna sem eiga eftir að tala og býst ég þó við að þeir eigi eftir að leggja margt gott til þessa máls og full ástæða sé til þess að fylgjast með því sem þar kemur fram.
    En aðallega kom ég hér upp, hæstv. forseti, til þess að segja það að mér finnst í raun og veru ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi að tala um þetta mál langt fram eftir nóttu. Svo langar mig til að spyrja um það hvort það sé ætlun hæstv. forseta að taka fleiri mál á dagskrá eftir að umræðu um þetta lýkur hvenær sem henni muni nú ljúka.