Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:30:47 (4308)


[01:30]
     Jón Helgason (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Mig undrar inn á hvaða braut hæstv. forseti beindi umræðu hér í tilefni af fyrirspurn minni áðan um það hvort við mættum ekki vænta þess að fá einhver svör við þeim fjölmörgu spurningum sem hafa verið bornar fram í umræðunni. Vegna þess hvernig hæstv. forseti beindi umræðunni hefur þessi umræða um fundarstjórn forseta staðið í klukkutíma og óraði mig ekki fyrir því þegar ég fór að inna eftir þessu að sú yrði raunin.
    Ég gerði ekki meira en að fara fram á það að fá svör frá hæstv. umhvrh. Ég beindi máli mínu ekki til frsm. meiri hluta umhvn. sem kannski hefði verið eðlilegast að snúa máli sínu til og óska eftir svörum. Ég gekk ekki heldur eftir spurningum sem ég bar fram við hv. þingmenn Sjálfstfl. sem eru fulltrúar í umhvn. og aðeins birtust á hlaupum í dag þegar ég var að tala og gat þá beint til þeirra orðum en þeir hafa kosið að svara því engu.
    Hér hafa síðan verið bornar fram aðrar spurningar og óskir í sambandi við þessa umræðu og það hefur komið fram hjá sumum hv. þm. að þeim finnst að þeir hafi litlar undirtektir fengið við þær óskir.
    Eftir þá reynslu sem við hv. þm. stjórnarandstöðunnar fengum t.d. í síðustu viku í sambandi við beiðni um meðferð mála í nefndum þá þarf það kannski ekkert að koma á óvart því vissulega gaf það tóninn um það hvernig hér ætti að halda á málum. Óneitanlega hvarflaði það að mér þegar ég heyrði svar hæstv. forsrh. við spurningunni um það

hver yrði fyrsta stjórnarmyndunartilraun hans að loknum kosningum að ef nægilegt fylgi væri til þá yrði að sjálfsögðu reynt við núv. stjórnarflokka, hvort núv. stjórnarflokkar séu orðnir svo öruggir um að þeir muni halda völdum áfram að þeir þurfi ekkert að taka tillit til annarra.