Lækkun húshitunarkostnaðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:59:06 (4337)


[13:59]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessari heimild í 6. gr. fjárlaga hef ég ritað stjórn Landsvirkjunar bréf með beiðni um það að hún gangi til viðræðna við iðnrn. um sameiginlegar aðgerðir til að lækka húshitunarkostnað á köldu svæðunum. Stjórn Landsvirkjunar hefur tekið þetta bréf fyrir og samþykkt fyrir sitt leyti að ganga til þeirra viðræðna. Ég legg allt kapp á það að þeim viðræðum verði lokið fyrir næstu mánaðamót. Þá hef ég einnig rætt málið við Rarik. Og hvað varðar Orkubú Vestfjarða er það að segja að Orkubú Vestfjarða hefur gengið orkufyrirtækja lengst í því að leggja fram sinn hlut til lækkunar húshitunarkostnaðar á hinum köldu svæðum þannig að það munar ekki lengur mjög miklu á milli húshitunarkostnaðar á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða og þeim markmiðum sem orkunefndin svokallaða setti sér árið 1991. Ég lít svo á að hér sé fyrst og fremst um að ræða verkefni í samvinnu milli iðnrn., Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og eins og ég sagði legg ég allt kapp á það að fá niðurstöðu í þeim viðræðum í þessum mánuði.