Breytingar á reglum Þróunarsjóðs

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:05:12 (4342)


[14:05]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er rangt sem hæstv. ráðherra er að segja að það sé ekkert til fyrirstöðu að varðveita þessi skip. Það skilyrði er sett fyrir því að það megi varðveita þau að þau verði sett á land og geymd á byggðasöfnum og það eru bara ekki þannig aðstæður hjá byggðasöfnum landsins að þau geti tekið við þessum skipum öllum. Það eru aftur á móti margir áhugaaðilar sem vilja eiga þessi skip sem skemmtibáta, sem báta til nota í ferðaþjónustu. Nú þegar hafa svona skip verið seld úr landi til nota í Noregi og víðar í ferðaþjónustu. Það er ömurlegt að menn skuli með slíkum reglum sem þessum að ætla að fyrirkoma síðustu tréskipunum sem voru smíðuð á Íslandi og ég efast ekki um að það verður dæmt hart af þeim sem hafa áhuga á slíkum málum í framtíðinni. Og ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða afstöðu sína til málsins og beita sér fyrir því að það verði opnað fyrir möguleika til þess að geyma þessi skip og þá á ég ekki við að geyma þau endilega á byggðasöfnum.