Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:57:38 (4460)


[14:57]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá þingmanninum, það er búið að krukka í frv. frá því að það var lagt fram og það er hárrétt hjá þingmanninum að það eru efnisatriðin sem skipta máli en ekki framsagan en í framsögunni kom fram að það er ekki mælt fyrir frv. eins og það var lagt fram á milli jóla og nýárs og það er það sem ég er að árétta. Það er gerð breyting á því að íbúðir verði ekki færðar á milli lánaflokka. Það er gerð breyting á ákvæðinu sem sneri að því að vextir gætu lækkað aftur. Það er líka gerð breyting á því að sveitarfélögin áttu að fá mjög mikið vægi í húsnæðisnefndunum enda verið að flytja mikið vald heim í hérað og það er fallist á það af hálfu þeirra að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar verði áfram í húsnæðisnefndunum sem var ákvæði sem verkalýðshreyfingin lagði mjög mikla áherslu á. Það er því tekið á nokkrum þáttum í samkomulagi við ýmsa aðila, ekki alla þá sömu, og búið að gera sátt um frv. sem þar af leiðandi er mælt fyrir svo breyttu frá því að það var lagt fram. Ég hef kynnt mjög vel hver efnistriði frv. eru og hverjar breytingar þess eru fyrir öllum sem sitja í félmn. og ég hef haft samráð við ASÍ og formann Sambands ísl. sveitarfélaga. Hárrétt hjá þingmanninum. Það er dregið úr ákveðnum ákvæðum varðandi tilflutning milli lánaflokka varðandi það að lækka vexti aftur.