Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:10:12 (4464)


[15:10]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekkert haft nein orð uppi um að neitt strandaði og mér er farið að finnast þetta orðhengilsháttur að vera sífellt að fara inn á aðrar brautir en það mál sem hér er til 2. umr. Ég ætla ekkert að hafa fleiri orð en ég hef þegar haft um greiðsluerfiðleika og sem við höfum farið í gegnum í þessari umræðu reyndar.
    En ég ætla að nefna annað sem ég hafði ekki tíma til að koma inn á í mínu andsvari áður og það var spurning þingmannsins um hvort ekki þyrfti að skoða ef íbúðir standa auðar út um allt land í tengslum við það þegar hann var að fjalla um fækkun íbúða. Ég mundi svara því: Jú. Það þarf nefnilega að skoða það á hverjum tíma hvernig samsetning þeirra félagslegu íbúða eiga að vera sem verið er að úthluta. Það getur á einum tíma verið réttlætanlegt að leggja mikla áherslu á úthlutun leiguíbúða og á öðrum tíma að vera með öðruvísi samsetningu úthlutunar þó að það mundi þýða færri íbúðir en ella miðað við þarfirnar og óskirnar frá þeim sem eru að sækja um.
    Mitt svar er því að það eigi á hverjum tíma að reyna að átta sig á því af hverju það hefur gerst á einhverjum stað að íbúðir standa auðar. Það er líka þannig að það er e.t.v. eðlilegt að ákveðið hlutfall félagslegra íbúða sé á hverjum stað og þegar ákveðnu hlutfalli sé náð þá sé mjög hægt á úthlutun til þess sveitarfélags. Þetta eru allt hlutir sem má skoða stöðugt og hafa mikið samráð um við sveitarfélögin og aðra aðila sem um þessi mál fjalla.