Iðnhönnun

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:13:33 (4508)


[16:13]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. og legg áherslu á það, eins og hann hefur gert, að það eru mörg tækifæri í því fólgin að leiða saman þekkingu og verkkunnáttu úr fleiri en einni atvinnugrein. Það er einmitt takmarkið sem við höfum verið að stefna að, m.a. með samvinnu sjútvrn. og iðnrn. í Vettvangi og ekki síður með samvinnu iðnrn. og matvælaframleiðenda um hönnun og þróun og markaðsátak í matvælaiðnaði. Í þriðja og síðasta lagi hefur það líka gerst að í samvinnu heilbrrn. og iðnrn. hafa náðst fram mjög merkileg nýmæli sem nýlega voru kynnt í sérstökum sjónvarpsþætti, þ.e. tölvubúnaður sem byggður er á samstarfi þessara tveggja ráðuneyta og er líklegur til þess að geta haslað sér völl, ekki bara innan lands heldur erlendis líka.
    Um byggingariðnaðinn þá vil ég taka undir með hv. þm. að það er nauðsynlegt að tryggja og treysta þá starfsemi sem þar fer fram. Það höfum við verið að gera, m.a. með átakinu í hönnun húsgagna sem hefur staðið með litlum hléum frá 1993 og stendur enn og með því gæðaátaki sem verið er að gera núna í sambandi við framleiðslu húshluta og byggingarhluta hér á Íslandi.