Áhættumat fyrir Reykjavíkurflugvöll

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:38:08 (4517)


[16:38]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Reykjavíkurflugvöllur er geysilega mikilvægur fyrir þjóðina og hann er ómetanlegt samgöngumannvirki, bæði fyrir höfuðborgina og jafnframt fyrir landsbyggðina. Með nokkrum hætti mætti segja að Reykjavíkurflugvöllur væri eitt af því sem gerir Reykjavík að höfuðborg landsins. Þess vegna þurfum við að vanda mjög umgengni um hann og við hann. Það getur verið nokkur áhætta og ónæði af flugrekstri inni í miðri borg en þá áhættu eigum við að minnka eftir því sem kostur er. Ég tel að stefnan eigi að vera sú að nota Reykjavíkurflugvöll fyrst og fremst fyrir farþegaflug innan lands en alveg skilyrðislaust að koma ferjufluginu til Keflavíkur. Það á engan rétt á sér inn á Reykjavíkurflugvöll. Það er rétt að kennsluflugi og einkaflugi þarf að finna annan stað, annaðhvort við Óbrynnishóla eða annars staðar. Síðast en ekki síst vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. samgrh. til þess að taka upp þetta mál með snjóhreinsun á brautinni í Keflavík. Það er náttúrlega alveg fráleitt að hafa jafngóðan völl lokaðan vegna þess að þessi braut er ekki snjóhreinsuð.