Varnir gegn mengun frá bifreiðum og vélum

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:20:05 (4533)


[17:20]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Það er ánægjulegt til þess að vita ef menn eru nokkuð vel á verði gagnvart ýmsum þeim hættum sem við eigum við að etja varðandi þennan þátt mengunar.
    En ég vil endurtaka það að ég álít að ef við ætlum að eiga hreinasta land á hinu vestræna hveli jarðarinnar og þá sennilega í heiminum þá verðum við að gera betur heldur en að fylgja erlendum stöðlum, við þurfum að ganga lengra. Annað er ekki hægt.
    Í Morgunblaðinu síðasta sunnudag var grein um hvarfakúta, af því að þeir hafa komið til umræðu hér, og þar er sagt frá, á mjög fræðilegan hátt, hvernig nýting hvarfakúta er. Og það kemur í ljós að í landi eins og hér, þar sem er oftast stutt keyrt og vélarnar hitna ekki mjög mikið, þá nýtist hvarfakúturinn kannski ekki eins vel og það ,,Powerplus`` sem hv. 4. þm. Vesturl., Gísli Einarsson, gerði að umtalsefni. Því álít ég að það þyrfti að rannsaka mjög vandlega hvort ætti heldur að snúa sér að hvarfakútum eða að ,,Powerplus``. Þetta er hvort tveggja sjálfsagt gott, en það sem betra er á auðvitað að nota.
    Það vill svo til að í dag lagði hæstv. dómsmrh. fram á þingi skýrslu nefndar um stefnumörkun að bættu umferðaröryggi til ársins 2001. Í þessari skýrslu er ekki, að því er virðist, nefnt neitt um öryggi í umferðinni gegn mengun. Og mér finnst ástæða til að benda á það, þó að skýrslan sé auðvitað ekki til umræðu hér að öðru leyti, en að það hefði kannski verið eðlilegt og sjálfsagt í þessari annars mjög athyglisverðu skýrslu að helga einhvern kafla vörnum gegn mengun vegna þess að hætta af mengun í umferðinni er sannarlega ekki síðri og slys geta skapast af mengun ekki síður en af öðrum þáttum sem þarna eru ræddir.