Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:39:30 (4628)


[18:39]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er engu nær með svör hæstv. ráðherra og ég get sagt honum það að ég er ekki ánægður með framkvæmdir til flugmála á Sauðárkróki, langt í frá. Það er hvergi nokkurs staðar orðið við óskum heimamanna hvað varðar framkvæmdir við Sauðárkróksflugvöll. Og að hæstv. samgrh. komi svo hingað upp eftir að ég er búinn að margbiðja um fund með yfirmönnum flugmála í samgn. þingsins og aldrei verið orðið við því og segist skulu beita áhrifum sínum til þess að ég geti átt persónulegt samtal við flugmálastjóra. ( Gripið fram í: Þetta er vel boðið.) Já, það er vel boðið eða hitt þó heldur. Ég hef bara takmarkaðan áhuga á því. Ég get orðið mér úti um slíkt samtal sjálfur. Ég óskaði eftir því að þessir menn kæmu á fund nefndarinnar. Samgn. þingsins á allan rétt á því að fá að ræða við þessa aðila og við þurfum enga milligöngu frá hæstv. samgrh. um það að fá eitthvert einkaviðtal við flugmálastjóra.
    Ég vil undirstrika að það kemur a.m.k. mér á óvart ef þingmenn Norðurlands vestra geta sætt sig við þær hugmyndir sem hér eru settar á blað. A.m.k. hefur enginn hér komið upp í þennan ræðustól sem hefur tekið undir þær.