Kosningar til Alþingis

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 10:59:01 (4790)


[10:59]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að taka hér til umræðu þær litlu breytingar sem nú eru gerðar á kosningalögunum. En í þeirri nefnd sem ég átti sæti í, sem fjallaði um þessi mál, hefur að mínu mati verið unnið gott undirbúningsstarf og það liggja fyrir upplýsingar og það liggja fyrir ákveðnar hugmyndir um það á hvern hátt hægt er að breyta í átt til jöfnunar og raunar fleiri en ein hugmynd og ég tel að á þessum grunni verði hægt að byggja mjög góðar tillögur.
    Þær hugmyndir sem við kvennalistakonur höfum einkum staldrað við eru hugmyndir um stækkun kjördæma. Við teljum að sá kostur bjóði upp á býsna marga möguleika og hafi þann kost einkum að þar verður hægt að sætta mismunandi sjónarmið. Þetta er ekki hægt að gera án þess að um það náist sátt og á þeim tíma sem við höfðum til ráðstöfunar þá er alveg ljóst að slík sátt hefur ekki náðst og eflaust þurfa slíkar hugmyndir lengri tíma. Þetta er sú hugmynd sem við kvennalistakonur höfum einkum litið til, en jafnframt er ljóst að allir verða að koma að þessu starfi með opnum huga og sérstaklega með það í huga að reyna að ná árangri og að reyna að ná þessum markmiðum án þess að glata því sem við höfum núna, en það er jöfnuður milli flokka.
    Ég tel að aðeins með þessu litla skrefi sé alla vega verið að sýna fram á að það er fullur vilji til þess að stíga áfram skref til jöfnunar. Þó þetta skref sé lítið þá er það engu að síður táknrænt fyrir það að þessi mál eru á hreyfingu. Það er ekki kyrrstaða og það er hægt að halda áfram og það hlýtur að vera hægt að halda áfram þannig að sjónarmið sem flestra fái að njóta sín því að þannig verður að standa að slíku máli.
    Það er gott ef hægt verður að halda áfram þessu starfi með tiltölulega opnum huga og tiltölulega laus við þær viðjar sem við í rauninni alltaf höfum af nútíðinni og ég vonast til þess að þetta samstarf sem við höfum átt, fulltrúar allra flokka, muni síðan geta haldið áfram með einum eða öðrum hætti og leiða til breytinga sem eru öllum til góðs.