Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 15:46:00 (4807)


[15:46]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel fulla ástæðu til að þakka mönnum fyrir þau miklu störf sem þeir hafa unnið í sambandi við þetta mál, stórmerkilegt starf að mínu viti. Það var nú ekki erindið í þennan ræðustól heldur hitt að segja það að auðvitað finnst mér lakara ef sú tillaga sem hér hefur nokkuð verið gerð að umtalsefni spillir fyrir því starfi sem hér hefur verið nefnt og hefur tekist svo vel til. Það var ekki meiningin og ég vil undirstrika það. Þetta mál, sem hefur komið inn í umræðuna sem tillögur okkar formanna stjórnarflokkanna, var hugsað sem sjálfstætt mál. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að ef ekki er full samstaða um það mál þá liggur það, þá truflar það ekki neitt. Það verk sem menn hafa unnið í stjórnarskrárnefndinni hlýtur að ganga fyrir. Það hefur fengið mikla og ítarlega umfjöllun og verið unnið þar af öllum flokkum af miklum heilindum þannig að það er áríðandi að tillöguflutningur okkar formannanna spilli ekki því starfi. Ég vona þó að við getum kannski hugsanlega fundið einhvern flöt og náð saman um efni hins málsins sem ég held að sé gott í gerðinni en ég undirstrika að ég vil ekki að það mál varpi á nokkurn hátt skugga á störf stjórnarskrárnefndarinnar.