Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:31:36 (5029)


[22:31]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki með svo fastmótaða stefnu í þessum málum að ég sé búinn að gera það upp við mig hvort það eigi að setja einhver ákvæði um læknisskoðun eða annað. Ég var bara að lýsa því viðhorfi mínu, sem hefur orðið mér hugleiknara á síðustu missirum, að þessi venja og þau viðhorf sem ríkt hafa í okkar þjóðfélagi séu kannski ekki alveg í takt við þær breytingar sem hafa verið að gerast.
    Varðandi leigubílstjóra sérstaklega þá get ég lýst því yfir að því eldri sem leigubílstjórarnir eru í New York, þar sem ég kem stundum, þeim mun skemmtilegri finnst mér þeir almennt vera því þeir hafa frá svo mörgu að segja og muna borgina þegar þar var annars konar mannlíf en er í dag.
    Það er líka með skemmtilegri endurminningum frá síðari árum þegar ágætur fyrrv. forseti neðri deildar, ef ég man rétt, sem var í eina tíð þingmaður fyrir Sósíalistaflokkinn og varð síðan leigubílstjóri og keyrði fram á háan aldur, keyrði mig einu sinni sem oftar og við ræddum um stjórnmálin og störf hans á þinginu einum 30 árum áður eða svo. Hann virtist nú vera jafnfær að flytja mig eins og að stjórna störfum þingsins hér á sínum tíma.