Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:50:08 (180)


[14:50]
     Geir H. Haarde (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða um framkvæmd á ákvæði sem er eins árs gamalt í þingsköpunum, var tekið inn við breytingar fyrir ári síðan. Á því eina ári sem síðan er liðið hefur sú venja skapast að þegar farið er fram á lengdan ræðutíma, þá er það gert með bréfi sem skrifað er fyrir hönd viðkomandi þingflokks, það eru þingflokkar sem eiga þennan rétt, þannig að það hefur verið framkvæmdin á þessu atriði frá því að þetta ákvæði kom inn í lögin.
    Hins vegar er það svo að í morgun hefur greinilega orðið einhver misskilningur milli manna þegar verið var að tala um þetta. Ég held að þetta mál sé alveg ljóst, hver efnisatriði þess eru. Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Í fyrra þegar beðið var um tvöfaldan ræðutíma í fjárlagafrv. var það gert með bréfi sem ég skrifaði fyrir hönd þingflokks sjálfstæðismanna vegna þess að þá lá fjmrh. kannski meira á hjarta en í dag og við komum okkur saman um að það væri ástæðulaust að biðja um það að þessu sinni. En auðvitað höfðu aðrir þingflokkar þennan sama rétt. En sem sagt, þessi beiðni kom ekki frá okkur og hún kom heldur ekki frá öðrum fyrir tilsettan tíma. Þannig liggur nú í þessu máli.