Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:42:08 (270)


[14:42]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það voru takmarkaðar skýringar sem hæstv. fjmrh. gaf sem svör við mínum spurningum enda kannski eðlilegt þar sem tíminn er stuttur til andsvara. En þó að hér sé um mismun að ræða milli ávöxtunarkröfu og nafnvaxta þá reikna þeir sem kaupa með 5% vöxtum, ávöxtunarkröfu. Hver er mismunurinn þar á milli? ( Fjmrh.: Ég skal reyna að skýra það.) Hver er þá hinn raunverulegi mismunur á 5% ávöxtunarkröfu og 8% nú? Er enginn mismunur á milli 8% vaxta af þessum ECU-bréfum og þeirra vaxta sem hafa verið þegar lífeyrissjóðir og aðrir slíkir fara að ákveða hvar þeir ætla sér að ávaxta sitt fjármagn?
    Hér eru bréf til fimm ára sem er gert ráð fyrir að standi þannig að það er ekki um mjög skamman tíma sem menn ávaxta sitt fjármagn. En fyrst og fremst óska ég eftir því að hæstv. fjmrh. útskýri þetta betur og hvort hann telji að þetta hafi engin áhrif á sölu á öðrum spariskírteinum ríkissjóðs.