Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:41:11 (299)


[16:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kemst ekki hjá því að spyrja hv. þm. af því að hann ræðir um langtímamarkmiðin hvernig Framsfl. hyggst, ef hann ætlar að frysta upphæð útgjaldanna, skera niður á móti þeim sjálfvirku útgjaldahækkunum sem koma fram á hverju ári upp á 3--4 milljarða. Hvar ætlar Framsfl. að skera? Er það í velferðarkerfinu, fjárfestingunum eða í rekstri? Og ég bið hv. þm. að sundurgreina það vegna þess að hv. þm. sagði að hann væri ekki sammála því sem sagt væri í kaflanum um þessi atriði og því sem kom fram í minni ræðu. Það er nefnilega svo að bara með því að halda útgjöldunum í stað í krónutölu, þá þarf að skera niður og mér finnst sanngjarnt að hv. þm. lýsi því þá hér og nú hvernig hann hyggst gera það.
    Í öðru lagi vil ég segja hv. þm. að nú þegar birtir til er talið að hagvöxtur hér á landi verði mjög hægur á næstunni vegna þess að enn hefur ekki tekist að auka fiskveiðar, fiskigengd er minni hér við land en áður. Það er talið að á næstu árum getum við búist við svona 1,5% á ári sem er um það bil helmingi minni hagvöxtur en er í nágrannalöndunum. Við þurfum þess vegna að vera raunsæ, þetta eru spár, og spyrja okkur hvernig við getum náð hallanum niður. Mér finnst þess vegna, virðulegur forseti, full ástæða til þess hér og nú fyrst boðið er upp á þessa umræðu, sem ég tel vera mjög góða, að ræða fram í tímann hvernig Framsfl. hyggst standa að því að skera niður 3--4 milljarða til þess að halda útgjöldunum óbreyttum en nýta tekjurnar til lækkunar halla.