Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:18:55 (497)

[14:18]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. veit þá er það ekki einfalt mál að leggja á fjármagnstekjuskatt. Það er viðkvæmt mál vegna þess að það má gæta sín á að sá skattur leggist ekki með miklum þunga á þá sem síst skyldi og þá á ég við sparifé gamla fólksins og lífeyrissjóðina og sparnaðinn sem gamla fólkið á í lífeyrissjóðunum. Þetta þurfum við að skoða mjög gaumgæfilega þegar við alhæfum almennt um að það sé ótæmandi tekjulind fyrir ríkissjóð er felst í fjármagnstekjuskatti. Þá þurfum við að skoða það vel að sá skattur hafi það ekki í för með sér að hann leggist á þá sem síst skyldi. Ég er hlynntur því að leggja skatt á fjármagnstekjur en ekki þá eigendur fjármagnstekna sem hafa verið að safna til elliáranna til þess

að geta átt þokkalegt ævikvöld. Þess vegna þurfum við að huga vel að þessu máli og alhæfa sem minnst heldur skoða málið gaumgæfilega og ræða efnisatriði þess frekar en að gefa í skyn að hér sé um ótæmandi tekjulind að ræða fyrir ríkissjóð.