Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:47:07 (507)

[14:47]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður beindi til mín spurningum í upphafi máls og ég bið hann afsökunar að ég gleymdi að svara þeim. Hins vegar er athyglisvert að hann biður um frestun á þessu máli vegna þess að hann vilji fá fjmrh. í salinn. Þó sagði hann fyrr, þegar þessi umræða hófst, að honum leiddist mjög að sitja undir slíku tali sem þáltill. hefur að geyma og nefndi þá til prófkjör og annað því um líkt. ( ÓRG: Alvöruleysi hjá þingmanninum.) Hann talar um alvöruleysi. Hér kemur hann svo sjálfur í öllu sínu alvöruleysi og talar um það eftir að hann hafði sagt það áðan að honum leiddist að sitja undir því tali sem hér færi fram að hann vilji fá fjmrh. til að svara ákveðinni spurningu. Það er náttúrlega hans mál.
    Hann spyr líka: Hvers vegna er þetta ekki frv.? Ég spyr hann á móti: Hvers vegna, hv. formaður Alþb., er þessi málflutningur þinn ekki kominn fyrr fram? Þetta er í þriðja skipti, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem ég flyt þessa þáltill. Og það er einkennilegt að þið alþýðubandalagsmenn hafið ekki tekið neinn efnislegan þátt í umræðu um þessa þáltill. tvö sl. þing. En nú af því að það er að styttast í kosningar og af því að þið eruð að gera víðreist um landið með miklum glæsibrag, eða hitt þá heldur, þá er verið að kalla fram umræðu um þetta mál. Það er allt í lagi. Þingflokkurinn hefur veitt heimild til að leggja þessa þáltill. fram. Landsfundur Sjálfstfl. hefur samþykkt að afnema tvísköttunina af ellilífeyri.
    Ég vona að þessi svör, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, séu nægjanleg a.m.k. í bili.