Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:38:33 (783)

[13:38]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan láta það koma hér fram, sem reyndar er fram komið, að um það var talað á fundi þingflokksformanna með forseta að ljúka í gær þremur málum, þ.e. fjáraukalögum, lánsfjárlögum og síldarbræðslufrv. og það er rétt að talað var um að halda kvöldfund ef þeim málum yrði ekki lokið. Ég var reyndar ekki hér í gærkvöldi en þá voru tekin til afgreiðslu fjögur önnur mál sem eru væntanlega þess eðlis að þau hafa verið talin vera umræðulítil og hafa sjálfsagt verið það þannig að það hefur verið talið smámál í sjálfu sér að koma þeim áleiðis. En kannski hefur hér verið um einhver mistök að ræða sem ég skal ekki svara fyrir en oft er það nú þannig að þegar svigrúm skapast þá er umræðulitlum málum, eða málum sem vænta má að séu umræðulaus, potað áfram á dagskrá eins og allir þingmenn þekkja. En það hefur áreiðanlega ekki staðið til af hálfu fjmrh. né neins annars að ganga neitt á svig við samkomulag eða svipta menn möguleikanum á því að tjá sig um þessi mál. Mér finnst því leitt ef hér hefur komið upp misskilningur. Það er rétt sem menn hafa verið að segja að það var búið að tala um að afgreiða þessi þrjú mál þannig að ég held að þetta hljóti að vera skýringin á því að svo fór sem fór hér í gærkvöldi.