Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:56:27 (795)

[13:56]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Það er rétt, ég sat á forsetastóli í gærkvöldi og líka nokkra stund um eftirmiðdaginn. Ég leit ekki svo á að það væri samkomulag um það að ræða ekki einhver tiltekin mál, heldur væri samkomulag um það að ljúka þremur málum. Það tókst að ljúka tveimur af þessum þremur málum. Það tókst ekki að ljúka né taka til umræðu síldarfrv., þ.e. takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu og mér tjáð þegar ég kom á forsetastól hér í gærkvöldi að nú hefði tekist nýtt samkomulag eða réttara sagt tekist samkomulag um að ræða það ekki. Hvort það hafi verið gert á þingflokksformannafundi veit ég ekki. En hitt vil ég segja að hér gengu störfin mjög vel á þinginu í gær og var góður árangur af þessu starfi og starfsdagurinn var langur. Við vorum hér fram yfir miðnætti og ég vil þakka þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðum og voru hér viðstaddir umræðuna sem því miður voru mjög fáir. En mér finnst það ansi skrýtið að það skuli taka hálftíma af starfstíma þingsins að ræða það að þegar verður góður árangur af störfum þingsins þá jaðri það við þinglegt slys. Það finnst mér ekki gott.