Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 14:52:57 (804)

[14:52]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið fram hér í umræðunni að jafnvel þótt um samkomulagsmál sé að ræða að mestu leyti eða mál sem flestir taka vel í, þá er 1. umr. hvers frv. mjög mikilvæg til að koma sjónarmiðum á framfæri og skapa ákveðna umræðu og ekki síst fyrir þá sem ekki eru í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Ég hef möguleika á að starfa að því máli innan þeirrar nefndar og mun því fyrst og fremst einbeita mér að því.

    Það voru ákveðin atriði sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á sérstaklega, sem ekki hafa komið hér fram og gerði raunar að umtalsefni þegar gripið var, þó seint væri og of seint, í taumana varðandi þann stóra hluta síldarinnar sem fór til bræðslu í lok síðustu síldarvertíðar og þegar í skyndingu var flutt frv. og hleypt hér á hraðferð í gegnum þingið. Þótt það næði ekki tilætluðum árangri þá fannst mér engu að síður ástæða til þess þá og finnst enn að gera það að umtalsefni hversu mikilvægt það er ef mögulegt er að fá meiri yfirsýn yfir þann markað sem stendur til boða og þá möguleika sem við munum hafa á sölu síldar til manneldis eins fljótt eins og auðið er. Vegna þess að það er ekki bara að við þurfum að hafa möguleika á því að uppfylla þá sölusamninga sem gerðir eru heldur skiptir líka miklu máli að það sé þegar í stað farið að vinna síld. Það er ekki sama á hvaða markað verið er að vinna síldina og að það sé verið að vinna hana á þann hátt sem heppilegt er fyrir hvern markað fyrir sig.
    Ég minnist þess fyrir nokkrum árum þegar beðið var eftir því í mínu kjördæmi í Grindavík að fá staðfestingu á því hvaða markaðir það yrðu sem unnið yrði fyrir og þetta var mikið vandamál. Það vantaði ekkert upp á það að bæði sjómenn og fiskvinnsla væru reiðubúin til að taka síld til manneldis, en það sem vantaði var yfirsýn yfir það á hvaða markað væri verið að vinna og fyrir vikið varð skipulagið ekki sem skyldi. Ég held að ef mönnum er alvara með það sem ég heyri, að hér eru ákveðin viðhorf uppi um að það þurfi að fara að kanna markaðsmál betur og jafnvel að styðja við, eins og hv. 4. þm. Vesturl. benti á og sjálfsagt einhverjir fleiri, að það þyrfti e.t.v. að styðja við þá uppbyggingu sem gæti orðið aftur á síldarsölu til Rússlands, þá held ég að það væri gott jafnframt að huga að þessu, að við mynduðum einhver þau tengsl að við gætum kortlagt manneldismarkaðinn fyrr heldur en nú er.
    Ég vil taka undir það sérstaklega og taka það sérstaklega fyrir að það er í rauninni tómt mál að tala um að hafa möguleika á því að beina hluta af þeirri síld sem veidd er í vinnslu til manneldis nema það sé reynt að koma á einhverjum stöðugleika og jafnframt reynt að greiða úr þeim vandamálum sem við stöndum nú frammi fyrir. Vegna þess að í fyrsta lagi tókst ekki vel til um samninga um síld í EES-samningunum og í öðru lagi vegna þess að það er a.m.k. ljóst að Finnland er á leiðinni inn í Evrópusambandið og mun þar hverfa inn fyrir þá verndartollmúra sem þar eru og þar erum við í verri stöðu heldur en fyrr.
    Það eru fleiri áhyggjuefni heldur en hér hafa komið fram. Hv. 2. þm. Vesturl. gerði raunar að umtalsefni líka ummæli hæstv. forsrh. nýverið þar sem hann lét að því liggja að þessi síldarmál væru ekkert stórmál jafnvel þó þau færu á versta veg og þetta væru einhverjir smáhagsmunir. Þeir eru það alls ekki og þessi hugsunarháttur og þetta hugarfar er þannig að mér finnst það mjög neikvætt innlegg í þessa umræðu.
    Varðandi það að fara hvatningaleiðina frekar en reglugerðarleiðina, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni, að sjómenn sem kæmu með síld í land til manneldis, þá skil ég ekki alveg hvað hann hefur í huga, en vildi þá gjarnan fá frekari hugmyndir hans. Hann nefndi kvóta og fleira, en ég er ekki alveg með á nótunum. Ég held í rauninni að við verðum að hafa möguleika á því að beina ákveðnum hluta síldarinnar til manneldisvinnslu og þá jafnvel að reyna fyrst og fremst að hugsa um að það komi sem jafnast niður á mönnum frekar en að fara að vera með einhverjar uppbætur. En auðvitað er sjálfsagt að skoða allt slíkt innan nefndarinnar svo framarlega sem það verður ekki til að tefja þetta mál.
    Hins vegar vil ég taka undir hans orð um það að það er gott strax í upphafi vertíðar að taka frá ákveðinn hluta síldarinnar til manneldis og fara þá frekar þá leiðina heldur en hina. Ég sé ákveðin rök fyrir því og svona í fljótu bragði held ég að ég geti tekið undir þau viðhorf. Við megum ekki standa aftur frammi fyrir þeim slysum að geta ekki nært okkar litlu markaði, sem við þó höfum, tryggilega.
    Það var aðeins eitt, út af ummælum hv. 2. þm. Vesturl., sem ég ætlaði að tiltaka í viðbót, en það er varðandi hversu mikið við munum ræða hér sjávarútvegsmál í vetur. Ég fékk upphringingu í morgun utan af landi frá manni sem spurði mig mjög hneykslaður hvort við ætluðum virkilega ekki að taka eitthvað á því hversu miklum fisk væri hent í sjóinn. Nú mun fiskiþing hafa fjallað um þessi mál líka og þetta er mál sem brennur mjög á fólki. Með þrengri kvóta þá er sífellt meiru hent og hann hafði haft samband m.a. við Fiskistofu sem kannaðist mætavel um málið. Það er spurning hvort Fiskistofu ber ekki að segja það opinskátt sem allir eru að tala um hver í sínu horni að það sé mikið vandamál sem verði að taka á fordómalaust og reiðilaust hversu miklum fiski er hent í sjóinn. Ég vil koma þessu á framfæri vegna ummæla hv. þm. um það að e.t.v. munum við lítið ræða sjávarútvegsmál. Á meðan við höfum þetta mál óleyst og að hluta til innbyggt sem skekkju í kerfið þá held ég að við verðum að taka á þessu. Ég veit að hér eru í salnum ýmsir aðilar sem hafa fullan hug á því og hafa sýnt það í verki og ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvað líði störfum nefndar sem átti að fjalla um meðafla. Ég man ekki betur en það hafi verið hluti af því samkomulagi sem tókst í vor. --- Ég vona að hæstv. sjútvrh. sé ekki á tali og heyri spurningu mína. Heyrir hæstv. ráðherra spurningu mína? Ég held ég endurtaki hana, ég sé ekki mjög miklar undirtektir. Ég er að spyrja hæstv. ráðherra hvað líði störfum nefndar sem átti að fjalla um meðafla og það vandamál sem skapast vegna þess að ekki er heimilt að koma með meðafla að landi. Ég vænti þess að hann svari spurningunni hér í þessari umræðu vegna þess, að gefnu tilefni, að við erum að tala um það að fara eins vel um auðlindina og hægt er og að fá sem mest verðmæti og ganga sem best um sjóinn. Þetta er hluti af því.