Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 14:15:21 (840)

[14:15]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við þurfum ekki í Alþfl. að vakna upp til neinnar vitundar. Sjálf hef ég verið í stjórnmálum frá 1978 og talið að ég ásamt þeim konum sem ég hef starfað með höfum haft og skipað mikinn sess og verið mikill þáttur í allri pólitískri umræðu og stefnumörkun í mínum flokki. Þar verður hins vegar ekki heldur staðar numið og þótt við höfum orðið fyrir áfalli nú, þá má e.t.v. segja að það sem lært verður af því er að maður skuli aldrei leggja of mikinn þátt í að hlúa að einhverjum einum heldur ævinlega vera á varðbergi fyrir því að sem allra flestir standi saman og vinni saman að málum.
    Varðandi spurninguna um hóphyggjuna. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef kafað mjög mikið niður í en menn eru að verða meðvitaðir um að konur hafa mjög oft myndað hópa á útjaðri t.d. alþjóðamála og ekki verið að starfa í þeirri miðju atburðarása sem nauðsynlegt er. Á vissan hátt býst ég líka við að þessi nýja hugsun lúti að því að það sé ekki málum okkar til framdráttar að starfa einar og sér t.d. eins og Kvennalistinn, miklu fremur í blönduðum hópum.