Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:37:48 (870)

[16:37]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þær gerast nú sérkennilegar kenningarnar hjá hæstv. utanrrh. Utanrrn. afhendir utanrmn. þessar skýrslur stimplaðar trúnaðarmál af hálfu utanrrn. Er það virkilega þannig að utanrmn. geti sjálf ákveðið að létta trúnaðarkvöð af skjölum sem utanrrn. merkir sem trúnaðarmál? Ef það er vinnureglan sem ráðherrann er að lýsa hér þá hljótum við auðvitað að taka slíkt til umfjöllunar í nefndinni í hvert sinn sem utanrrn. leggur fram plögg merkt trúnaðarmál. En hingað til hefur utanrmn. í áraraðir fylgt þeirri reglu að merki utanrrn. einhver skjöl sem trúnaðarmál þá afléttir nefndir ekki þeirri kvöð heldur gerir ráðuneytið það sjálft. Það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra segir það nú að nefndin ráði því hvort þessar skýrslur eru birtar eru ekki en það er auðvitað athyglisvert að ráðherrann hefur ekki afhent öðrum þingmönnum þessar skýrslur. Hann hefur ekki talið ástæðu til að leggja þær fram í þinginu þannig að við sem sitjum í utanrmn., þessir 9 þingmenn ef ég man rétt, erum þeir einu sem höfum þessar skýrslur með höndum. ( PP: Og varamenn.) Já, og varamenn, þó var það nú ekki ljóst þegar skýrslan var afhent hvort varamenn áttu að geta fengið þær þannig að þeir urðu að ganga sérstaklega eftir því. En engu að síður telur utanrrh. sér fært að fara að draga ályktanir af skýrslum sem hann hefur ekki séð ástæðu til að leggja fyrir þingið. Það sýnir einfaldlega að utanrrh. hefur veika stöðu í þessu máli og reyndar svo veika stöðu almennt eftir þessar umræður að ég mundi í sporum utanrrh. hugsa mig alvarlega um þegar hann er kominn heim í kvöld hvort hann eigi að halda áfram á þessari braut vegna þess að það sem athyglisvert er við þessa umræðu er að ráðherrann hefur engan stuðning fengið hér í þingsalnum fyrir það meginmál sem hann

flutti í dag.