Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:54:40 (874)

[16:54]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég var alls ekki að bjóða hv. 3. þm. Reykv. í Framsfl. Það er mikill misskilningur. Stefna Framsfl. í þessu máli er sú að Ísland eigi ekki að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Það er alveg klár stefna. Ég skil ekki hv. þm. Björn Bjarnason betur en að hann hafi tekið undir þá sömu stefnu. Hann talaði ekki svona þegar við vorum að ganga frá EES-málinu. Þá tók hann ekkert af um það að Ísland ætti ekki að ganga í Evrópubandalagið. Þess vegna tel ég að hv. þm. sé að nálgast okkar stefnu.
    Varðandi fréttaflutning frá Brussel sé ég ekki ástæðu til að nefna hlutina einhverjum dulnefnum. Ég tel að sá fréttaflutningur sé markviss og skipulagður.