Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 17:19:29 (886)



[17:19]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get út af fyrir sig fagnað því að það var ekki rétt sem kom fram fyrr í umræðunum að tímasetning hafi verið inni í ummælum hv. 3. þm. Reykv. Ég er því fegin að málefni muni þá eftir sem áður ráða afstöðu hans því að ég tel að hún sé miðað við núverandi aðstæður mjög skynsamleg.
    Ég tek undir það og geri ráð fyrir að hv. þm hafi heyrt það að ég gerði það sama að umræðuefni í ræðu minni og hv. þm. Tómas Ingi Olrich að breytinga gæti verið að vænta eftir ríkjaráðstefnuna 1996. Ég lýsti þar að vísu skoðun minni að ég tel meiri hættu á að stóru ríkin hafi betur en að sjálfsögðu er fólk út um alla Evrópu að ræða þá óþolandi stöðu sem er innan hins miðstýrða og ólýðræðislega bákns sem Evrópusambandið er eins og það lítur út núna. Það er ekki nema sjálfsagt að reynt sé að vinna innan og utan Evrópusambandsins að því að þar verði lýðræðislegri straumar sem ráði ferðinni.