Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:11:45 (1245)


[17:11]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér spurði fyrirspyrjandi hæstv. félmrh. hvort hann hygðist ekki beita sér fyrir því að nýttar yrðu í núverandi lögum heimildir sem eru þar til skuldbreytinga. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að kynna sér þær heimildir og þá greinargerð sem fyrir liggur um það. Það eru nokkrir ónýttir möguleikar í þeim efnum, en þeir voru ekki nýttir í tíð fyrrv. félmrh. vegna þess að hann vildi ekki láta nýta þá. Og þó að hæstv. félmrh. hafi ekki staðið sig vel í því að hraða framgangi mikilvægra mála að því er virðist af svörum dæma, þá getur hann þó gert betur en forveri hans í því að óska eftir því að Húsnæðisstofnun nýti þær heimildir sem eru fyrir í lögum til skuldbreytinga og ég hvet ráðherrann eindregið til að kynna sér það mál.
    En ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að hvílíkan kattarþvott hef ég aldrei séð hjá nokkrum þingmanni eins og hv. fyrirspyrjanda sem kemur úr félmrn. með þá gífurlegu skuldabagga sem búið er að hlaða á fjölskyldurnar m.a. vegna húsnæðislánakerfisins. Það er alveg með ólíkindum málflutningurinn hjá hv. þm.