Skýrslur stofnana Háskóla Íslands um ESB-aðild

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 10:46:29 (1644)


[10:46]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er fyrst varðandi spurninguna hvort búið sé að aflétta leyndarkvöðinni af þessari skýrslu. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. utanrrh. 27. okt. sl. í umræðum um utanríkismál þar sem hann sagði að hvað hann áhrærir þá sé búið að aflétta þessari kvöð. En það sem er sérkennilegt í því er að menn eru að tala um að aflétta kvöð af einhverjum skýrslum sem eru ekki til. Ég vek athygli á því að þetta eru ekki tilbúnar skýrslur, hér eru til drög að einhverjum skýrslum eftir því sem maður hefur upplýsingar um. Það er ekki hægt að aflétta kvöð af einhverri skýrslu sem er ekki til. Það er því fráleitt að hæstv. utanrrh. segi að hann sé að aflétta kvöð af einhverri skýrslu sem er einfaldlega ekki til.
    Málið snýst ekkert um þetta. Það sem málið snýst um er að látið er í veðri vaka í auglýsingum Alþfl. að einhverjir tilteknir ráðherrar eða stjórnmálamenn vilji koma í veg fyrir að þessi mál séu rædd og þess vegna segir í auglýsingunni að Alþfl. telji nauðsynlegt að sem flestir fái tækifæri til þess að kynna sér þessar upplýsingar.
    Ég tel einfaldlega að eins og að málinu var efnt þá sé langeðlilegast að við þingmenn fáum þessar skýrslur í hendur, fáum tækifæri til þess að ræða þessi mál á forsendum þessara skýrslna. Ég segi fyrir mína parta að ég hef ekkert nema gott um það að segja að hinir fróðustu menn hjá háskólanum séu fengnir til þess að segja álit sitt á þessu máli.
    Varðandi athugasemd hv. 1. þm. Austurl. þá verð ég að segja að eins og hann þekkir úr þingsköpunum þá er einfaldlega gert ráð fyrir því að umræður um störf þingsins, fari fram í upphafi þingfundar. Mér var ekki ljóst hvort ráðherrar væru viðstaddir eða ekki. En umræða af þessu tagi getur ekki farið fram undir öðrum kringumstæðum nema að láta þær dragast fram yfir fund Alþfl. á sunnudaginn.