Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 14:31:46 (2210)


[14:31]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. byggist á misskilningi sem ég skal skýra.
    Í fyrsta lagi er skattafslátturinn almennur, hann gildir ekkert fyrir þetta fyrirtæki fremur en önnur.
    Í öðru lagi er þegar um greiðslukjör er að ræða, sem ekki allir velja, bréfið ekki afhent fyrr en greiðsla hefur að fullu komið fyrir. Það er því ekki hægt að framselja bréfið til annars aðila, selja það, fyrr en bréfið er að fullu greitt. Alveg ljóslega.
    Loks vil ég segja það að samkvæmt íslenskum skattalögum er ekki hægt að notfæra sér frádráttarheimildina nema að ákveðnu marki og það verður síðan að bæta við hlutabréfaeign hvers og eins ef hann ætlar að notfæra sér hana ár eftir ár. Misskilningurinn liggur í því að fyrir þá sem fá lán er útilokað að selja bréfið fyrr en það lán, við getum kallað það lán ef það er á þessum greiðslukjörum, fyrr en bréfin verða greidd upp því bréfinu er haldið eftir sem handveði þar til greiðsla er komin að fullu.