Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:06:18 (2264)


[23:06]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kom að því að hæstv. fjmrh. svaraði og svarið var skýrt og greinilegt. Hæstv. sjútvrh. fór ekki að vilja hæstv. fjmrh. í þessu máli. Hæstv. sjútvrh. hafði málið á sínu borði og hélt hjá sér. Það er hæstv. sjútvrh. sem ber ábyrgðina á því hvernig farið var að og þetta er ný reynsla fyrir hæstv. fjmrh. sem hann ætlar fyrst og fremst að nýta til framtíðarinnar til að gera hlutina öðruvísi í framtíðinni heldur en hæstv. sjútvrh. stóð fyrir að gera við einkavæðinguna á SR-mjöli hf. Ég held að þetta séu út af fyrir sig svör sem ég geti sæmilega við unað að fá. Ég tel að það sé mjög gagnlegt og þinginu sérstaklega mikilvægt að vita það að hæstv. fjmrh. vill standa betur að einkavæðingunni en gert var í sambandi við SR-mjöl málið og ég vona sannarlega að hæstv. fjmrh. fái þá að ráða því í framtíðinni, a.m.k. í þeirri litlu framtíð sem hann á eftir í stóli hæstv. fjmrh. að það verði ekki farið að með líkum hætti og gert var við söluna á SR-mjöli hf.