Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:13:42 (2420)

[14:13]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil vegna orða hæstv. ráðherra um það að menn hefðu haft nógan tíma til þess að kynna sér þessi mál segja það að þegar þessi mál voru fyrst á dagskrá fyrir sólarhring síðan eða tveimur, þá voru þessi mál einungis tvö og það var auðvitað fundið að því að í þessum tveimur málum sem fram höfðu verið lögð var gert ráð fyrir breytingum sem byggðust á því að eitthvert lagafrv. kæmi, hið þriðja, og því frv. hefur nú verið dreift í þinginu. Menn hafa ekki haft langan tíma til þess að skoða það frv. en það er á dagskrá núna og ég tel auðvitað eðlilegast og getur ekki hjá því farið að allir þurfi að ræða þessi mál í samhengi sem hér eru lögð fram því að þau hanga öll saman. Þess vegna tel ég að það sé með ólíkindum að menn skuli fyrtast við þó að hér sé beðið um frest til þess að skoða þessi mál betur. Og það þýðir auðvitað ekkert að segja að hér sé ekki á ferðinni stefnubreyting í áfengismálum. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að tala um þetta eins og það sé ekki stefnubreyting í áfengismálum? Það er t.d. gert ráð fyrir því í þessum frumvörpum að hver einasti einstaklingur á Íslandi geti flutt áfengi frá útlöndum til einkanota. Það er ekkert talað um það í hve miklu magni megi flytja þetta áfengi til einkanota til landsins eða með hvaða hætti.
    ( Forseti (VS): Halda sig við fundarstjórn forseta.)
    Ja, ég er að segja það, hæstv. forseti, að hér er á ferðinni veruleg stefnubreyting. Hér eru á ferðinni frumvörp sem hafa veruleg áhrif á áfengisstefnuna sem hefur verið rekin til breytinga og það er þess vegna fullur rökstuðningur fyrir því að þingmenn fái tækifæri til þess að undirbúa sig undir þessa umræðu.