Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 16:32:18 (2935)



[16:32]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það átti að ljúka störfum þingsins fyrir síðustu helgi. Í gær var fundahald með þeim hætti að stuttir fundir voru haldnir og kvöldfundur sem átti að vera stóð stutt. Síðan höfum við verið látnir bíða eftir því að fundur hefjist kl. 3 í dag og hann er ekki búinn að standa nema stundarfjórðung þegar fjáraukalögin eru sprungin í loft upp, fjáraukalög fyrir 1994. Það var óskað eftir fundarhléi til þess að málin skýrðust nánar. Nú er tilkynnt á forsetastóli að málið sé tekið út af dagskrá og það eina dagskrármál, sem var á dagskrá í dag, er ekki hægt að taka til umræðu vegna ágreinings í stjórnarliðinu. Það átti aðeins að ræða eitt mál í dag, fjáraukalög fyrir árið 1994. Formaður sjútvn., Matthías Bjarnason, og formaður landbn., Egill Jónsson, hafa sprengt það mál í loft upp vegna þess að þeir voru ekki látnir vita af afgreiðslu fjárln. í málinu. Nú er ágreiningurinn greinilega orðinn svo djúpstæður að ekki er hægt að halda áfram umræðu um málið og óvíst hvort það kemur til umræðu í kvöld. Á meðan eigum við þingmenn að bíða og bíða og bíða án þess að hafa hugmynd um það hvað gerist hér næst. Ég tel það vera vanvirðu við okkur þingmenn aðra að enginn forustumaður stjórnarflokkanna skuli leggja í að útskýra í ræðustólnum hvað er hér eiginlega að gerast og ég fer fram á það að einhverjir forustumenn stjórnarflokkanna skýri það í ræðustólnum hvað er eiginlega að gerast. Þinginu átti samkvæmt tilkynningu forseta þingsins í gær að ljúka á morgun. Ef það er ekki hægt einu sinni að taka frv. til fjáraukalaga til umræðu í dag vegna ágreinings í stjórnarliðinu er auðvitað alveg ljóst að engu þingi verður lokið á morgun. Ég fer þess vegna fram á það áður en haldið er áfram með nýjan fund og einhver allt önnur mál að einhver af forustumönnum stjórnarliðsins útskýri fyrir þingheimi hvað er eiginlga að gerast.