Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 16:47:16 (2941)

[16:47]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að þetta er mjög sérkennilegt ástand sem við stöndum frammi fyrir hér. Samkvæmt áætlun var meiningin að hætta hér á morgun, en ég get ekki annað en vakið athygli á því, ég var að taka þetta saman og hef svo sem gert það áður, að við eigum enn eftir 3. umr. um fjáraukalög sem reynt var að hefja í dag en fór öll í háaloft. Við eigum eftir 2. og 3. umr. um lánsfjárlög, við eigum eftir 3. umr. fjárlaga fyrir næsta ár, við eigum eftir 2. og 3. umr. um skattamálin og við eigum eftir 2. og 3. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það þarf enginn að ímynda sér að hér séu einhver smámál á ferðinni. Inni í þessum frumvörpum öllum eru mikil ágreiningsmál og átakamál og það gerðist með látum að bæði lánsfjárlögin og ráðstafanir í ríkisfjármálum voru tekin út úr efh.- og viðskn. í gærkvöldi vegna þess að þar voru óafgreidd mál. Þar var málum frestað sem þarf að taka á milli 2. og 3. umr. Menn voru einfaldlega ekki tilbúnir.
    Ég vil taka sem dæmi að inni í bandorminum er mál sem mörgum þingmönnum Reykjavíkur og Norðurl. e. er mjög annt um sem eru áætlanir um að leggja niður embætti héraðslækna í Reykjavík og í Norðurl. e. Það er komið í ljós að þetta mál er algerlega óundirbúið, þetta er enn ein vitleysan úr heilbr.- og trmrn. þar sem menn bara skella fram einhverjum sparnaðartillögum en það er engan veginn ljóst hvað á síðan að gera. Það er ekki hægt að ganga svona frá málum. Það er alveg ljóst að um þetta mál verða miklar umræður ef ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki reiðubúnir að ganga til samstarfs um það að fresta þessu í það minnsta og skoða þetta mál miklu nánar. Ég held því, virðulegi forseti, að við stöndum frammi fyrr því að það verður afar erfitt að ljúka þingstörfum á morgun eða aðra nótt og meðan það eru ófrágengin mál milli stjórnarflokkanna og innan stjórnarflokkanna þá væri best að gefa stjórnarþingmönnum svolítinn frið þannig að þeir öðlist nú frið í sálinni á hátíð ljóss og friðar og kæli sig svolítið niður og við reynum þá heldur að halda hér áfram milli jóla og nýárs. Ég sé ekki betur en við stöndum frammi fyrir því.