Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 16:51:38 (3048)


[16:51]
     Páll Pétursson :

    Frú forseti. Nú er hæstv. forsrh. illa fjarri því að ég ætlaði að beina máli mínu til hans. Ég held að það þýði nefnilega ekkert að tala við hæstv. fjmrh. Hann hvorki vill né getur leyst þessa deilu. Hæstv. forsrh. gefur hins vegar gefið fyrirmæli um að semja.
    Þetta er orðið alveg gersamlega óviðunandi ástand. Stór hópur af vel vinnandi fólki á í kjaradeilu og það er orðið neyðarástand hjá fjölda fólks. Kjaradeilan er sprottin upp vegna þess að samið var um hækkun hjá hjúkrunarfræðingum. Það er eðlilegt að sjúkraliðar sem búa við lakari kjör en hjúkrunarfræðingar vilji fá hliðstæða hækkun og hjúkrunarfræðingar. Ríkið féllst á að veita hjúkrunarfræðingum hækkun. Hvernig sem það var nú til komið, hvort sem það var fyrir aulaskap Árna Sigfússonar eða hvað það var sem olli því, þá féllst ríkið á að veita hjúkrunarfræðingum hækkun. Þess vegna hlýtur það að eiga þá skyldu að veita sjúkraliðum svipaðar málalyktir.
    Ég skora á hæstv. forsrh. að koma bara upp í þennan ræðustól og gefa hæstv. fjmrh. fyrirmæli um að semja. Honum var ekki mikið fyrir að taka fram fyrir hendurnar á hæstv. fjmrh. þegar lagður var skattur á blaðburðarbörn, hann hefur æfinguna, hann hefur valdið og hefur sýnt það að hann getur beitt sér og þetta ber honum að gera.