Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:23:26 (3092)


[22:23]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er eitt af því sem er í þeirri athugun sem fram fer undir forustu Þjóðhagsstofnunar. En það samkomulag sem ég náði við hæstv. sjútvrh. um stjórn Fiskveiðasjóðs gerir einmitt ráð fyrir að þetta sé stöðvað með þeim hætti að stjórn Fiskveiðasjóðs hefur samþykkt að engar lánveitingar til skipasmíðaverkefna verði veittar úr sjóðnum nema útboð hafi áður farið fram innan lands. Þar með er Fiskveiðasjóður ekki lengur aðili að því að lána til viðgerðarverkefna í skipasmíðaiðnaði eða nýsmíða nema útboð hafi áður farið fram innan lands. Þetta samkomulag tók gildi að mig minnir um mitt sumar eða um

það leyti. Síðar er mér ekki kunnugt um að neitt skip hafi farið til viðgerðarverkefna í útlöndum með lánveitingarheimild frá Fiskveiðasjóði nema útboð hafi áður farið fram innan lands. Hversu mörg skip fóru til útlanda með lánveitingarheimild frá Fiskveiðasjóði fyrir þann tíma veit ég ekki en ég veit að þau voru allnokkur sem það gerðu án þess að hafa leitað tilboða hér innan lands. Það er sem sé búið að stöðva það, þ.e. í þeim tilvikum þegar þarf á að halda láni frá Fiskveiðasjóði.