Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:53:53 (3116)


[23:53]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér er kannski nokkur vandi á höndum að ræða þetta af nægjanlegri þekkingu við hv. þm., en mér er þó tjáð af öðru nefndafólki í fjárln. að hugsunin sé sú að þessar rannsóknir eigi einkum að ýta undir og örva ferðamennsku á viðkomandi slóðum. Og málin gerast náttúrlega nokkuð flókin ef þetta er nýmæli fyrst og fremst vegna þess að komið sé á fót stöðu til rannsóknastarfa sem framhaldsskólakennari geti starfað í. Og ég spyr þá: Er það þá skilyrði að maðurinn sem fer í stöðuna sé framhaldsskólakennari? Er það bundið þannig? (Gripið fram í.) Ég held að hv. þm. Árni Johnsen verði þá að útskýra þetta betur en hann gerði hér áðan ef það á að vera fyrir hvítan mann að skilja þetta.