Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 16:18:17 (3172)


[16:18]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tók það fram í ræðu minni eða hinu stutta tali hér áðan að ég áskildi mér rétt til þess síðar þó ég notaði þetta stutta inngrip sem við höfum samkvæmt þingsköpum til þess að fjalla um aðra áhugaverða hluti.
    Ég er sammála hv. þm. um að sagan sýnir það að Sjálfstfl. í skoðanakönnunum hefur nánast ætíð verið ofmældur, ekki síst þegar hann hefur verið í mikilli sókn. Það hefur sýnt sig. Reyndar gerðist það í borgarstjórnarkosningunum síðast að þá hlaut flokkurinn nánast sama fylgi og hann hafði fengið í síðustu fjórum könnunum þar á undan. Það er nýtt og það kann að vera vegna þess að það voru eingöngu tveir flokkar, eða listar, skulum við segja, í kjöri.
    Ég held reyndar að þessar kannanir núna kunni að vera dálítið öðruvísi vegna þess að við höfum nýjan spútnikk sem ég get vel unnt þess að fari svolítið hátt í könnunum og fái bærilega útkomu, ekki

allt of mikla kannski en svona sæmilega, út á okkar ágæta samstarf. En ég held að þegar einn nýr spútnikk kemur og tekur 25% þá séu óvissuþættirnir sem eftir standa í könnunum ekki þeir sömu og hafa verið gagnvart Sjálfstfl. sem er alveg hárrétt hjá hv. þm. að hefur verið ofmetinn í skoðanakönnunum. Nánast ætíð. Ég er ekki viss um að það gildi nákvæmlega um þetta. Nú er ég bara að ræða þetta í fræðilegum tilgangi og hafa af þessu gaman sem maður gerir á milli jóla og nýárs en síðan skal ég á eftir í fullri alvöru ræða við hv. þm. um efnahagsmálin.