Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 03:30:28 (3286)


[03:30]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég greip ekki alveg orð hv. 2. þm. Vestf. þar sem hann vék að ræðu minni áðan. En til að taka af allan vafa þá vil ég segja að það sem ég sagði um þetta fyrirtæki Silfurlax hf. var einfaldlega það vegna þess að ég þekkti þetta mál ekki nægilega þegar ég kom til þessarar umræðu þá skoðaði ég það algerlega fordómalaust. Ég hafði enga skoðun sérstaka á fyrirgreiðslu til þessa tiltekna fyrirtækis. En ég gagnrýndi það hins vegar mjög harðlega og benti á að þetta væri alveg gjörsamlega úr samhengi við það sem áður hefði verið gert og það var þungamiðjan í minni gagnrýni hér áðan. Ég gagnrýndi það sem sagt að sú fyrirgreiðsla sem hér væri uppi á borðum væri úr samhengi við það sem áður hefði verið um talað og ákveðið og ég lýsti mikilli furðu og ég held að ég hafi orðað það reiði og vonbrigðum yfir því að svona skyldi vera að verki staðið og við það stend ég. Ég ítreka það að ég hef svo sem enga skoðun til né frá á þessu tiltekna fyrirtæki aðra en þá að mér hefur heyrst á þessari umræðu að þarna sé á ýmsan hátt merkileg starfsemi eins og ég tel reyndar að fari fram víðast hvar í fiskeldisfyrirtækjum í kringum landið og hafi gert það um árabil þó að sumt hafi mistekist eins og gengur vegna aðstæðna sem á margan hátt voru óviðráðanlegar. Þetta vildi ég bara að kæmi skýrt fram til þess að enginn misskilningur væri hér á milli. Ég er ekkert viss um að hv. 2. þm. Vestf. hafi neitt misskilið mig en ég heyrði ekki ummæli hans að fullu og vildi til þess að taka af allan vafa segja þessi orð.