Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 03:51:38 (3290)


[03:51]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þingmönnum finnst svo augljóst samhengi á milli þessara mála að haldinn var sérstakur þingflokksfundur í Sjálfstfl. í umræðunni til þess að ræða það samhengi. Hv. þm. Einar Guðfinnsson hefur mjög ítarlega rökstutt það í ræðu sinni hvert það samhengi er, hæstv. fjmrh. Auðvitað er það þannig að flest fiskeldisfyrirtæki á Íslandi ef ekki öll eru með einhverjum hætti sérstök. Það er einu sinni þannig með fiskeldið á Íslandi að sjálfsagt er ekki hægt að finna nein tvö fyrirtæki sem eru alveg eins eða hliðstæð. Með vissum hætti er það alveg rétt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur sagt að mörg íslensk fiskeldisfyrirtæki eru í eðli sínu tilraunastarfsemi og ég held að það fyrirtæki sem starfað hefur lengi á Tálknafirði, Þórslax, sé einmitt tilraunafyrirtæki af því tagi. Eins og ég nefndi áðan var ekki rokið í það að byggja upp það fyrirtæki með einhvern skyndigróða í huga. Það var tilraunafyrirtæki af því tagi að það var fjölskylda sem um langt árabil, stig af stigi, skref fyrir skref vandaði sig mjög með eigið fjármagn til þess að byggja þar upp traustan grundvöll. Það hefur líka verið upplýst hér að það þurfti mun minna fjármagn, hæstv. fjmrh., til þess að tryggja framtíð þess fyrirtækis en þessar 50 millj. sem um er rætt. Þá var auðvitað eðlilegt að meta það ef ríkissjóður ætlaði sér á annað borð að fara að veita viðbótarábyrgðir fyrir fiskeldi fyrst sú stefna var tekin. Í nóvember barst erindið til landbrn. að fyrst á annað borð var farið að veita viðbótarábyrgðir þá væri eðlilegt að meta það hvort ekki væri sjaldgæft að hluti af því kæmi til

góða fleiri fyrirtækjum en þessu eina.