Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:05:44 (3296)

[04:05]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru mörg dæmi um það víðs vegar af landinu að fyrirtæki fái ekki viðskipti við bankastofnun sem þau eru sátt við. Það er bara einfaldlega þannig og það verða hv. þingmenn að skilja, að viðskrh. getur engu um það ráðið gagnvart viðskiptabönkunum hvaða viðskipti bankastjórnir viðskiptabankanna ákveða að taka upp. Bankastjórnirnar ráða því alfarið sjálfar. Og það eru mörg dæmi um það að Landsbankinn og raunar hinn ríkisviðskiptabankinn líka hafi hafnað viðskiptabeiðnum fyrirtækja sem hafa viljað komast þó ekki væri nema í afurðalánaviðskipti við bankann. Viðskrh. hefur ekkert vald í þeim efnum til þess að gefa ein eða nein fyrirmæli til ríkisviðskiptabankanna. Hann getur beint tilmælum eða spurst fyrir um afstöðu þeirra, en niðurstaða bankanna er ótvíræð og afgerandi. Ársreikningsprókúruhafinn hefur þar ekkert vald.