Útflutningur hrossa

71. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 21:56:03 (3395)


[21:56]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var kannski einungis það sem kom fram í fyrri ræðu hv. þm. og e.t.v. leyfist mér ekki að flytja hér andsvar gagnvart henni. En það vottaði fyrir eilitlum söknuði hjá þingmanninum gagnvart því að málið væri ekki EES-mál og skil ég það út af fyrir sig ágætlega. En þá get ég hins vegar huggað hv. þm. með því að með þessu frv. er verið að uppfylla eitt ákvæði gagnvart útflutningi til Evrópu og reyndar útflutningi inn á fleiri markaði, sem lýtur að því að rjúfa tengslin á milli þeirra sem annast heilbrigðisskoðun, þ.e. dýralækna og þeirra sem eru að selja hrossin. Þannig að í þessu frv. er reiknað með því að það sé innheimt þetta 8 þús. kr. gjald og það sem menn fái í staðinn sé m.a. hin lögbundna og lögboðna heilbrigðisskoðun. Og ef það uppfyllir að einhverju leyti eða kemur að einhverju leyti til móts við þennan vonbrigðatón í hv. þm., að hér væri ekki EES-mál, þá er þetta vissulega einn liður í því að uppfylla þann samning.