Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 00:22:56 (3480)


[00:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru örfá orð vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Ég vil taka það fram að það er rétt hjá honum að frv. er fyrst og fremst um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 en í frv. eru að sjálfsögðu ákvæði sem eru til lengri tíma. Varðandi það mál sem hann sérstaklega gerði að umtalsefni hvernig ráðstafa skuli tekjum af flugvallargjaldi skal tekið fram að það er markað á hverjum tíma í flugmálaáætlun og svo mun verða gert einnig að þessu sinni. Það er nauðsynlegt að það komi fram að þessi tillaga er gerð í fullu samráði við fulltrúa stjórnarandstöðunnar og það var ekki um það ágreiningur hvernig hún var orðuð þó að það sé að sjálfsögðu ekki neinn yfirlýstur stuðningur við tillöguna sem slíka.
    Það er ekki mitt að segja til um það hvernig fjármununum er ráðstafað en það kemur að sjálfsögðu til kasta þingsins því að það er ekki hægt að afgreiða flugmálaáætlun og breytingar á henni nema þingið geri það þannig að hv. þm. getur alveg reitt sig á það að þingið mun þurfa að fjalla um flugmálaáætlun.