Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 00:24:32 (3481)

[00:24]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra að það sé sjálfsagt að ákvæði séu í frv. sem ná yfir lengri tíma en heiti þess segir. Að sjálfsögðu á svo ekki að vera að mínu mati. En ég vil minna ráðherrann á að hér erum við að ræða frv. til laga, við erum að breyta lögum samkvæmt tillögu hans og ef það verður samþykkt þá verða menn að framkvæma þau lög. Flugmálaáætlun er ekki lög heldur þál. þannig að menn verða að framkvæma þessa skerðingu sem hér er boðuð á næsta ári og þurfa ekkert endilega að fá nýja flugmálaáætun samþykkta til þess ef ég hef réttan skilning á þessu. En það sem ég held og var að spyrja eftir er að ég býst við því og tel það eiginlega víst að stjórnarliðið hafi sett upp fyrir sig hvar það er sem það ætlar að bera niður í áformuðum niðurskurði. Menn hjóta að hafa skoðað útdeilinguna á peningunum ef menn eru búnir að deila út þessum peningum og menn hljóta að hafa gert sér grein fyrir því hvaða framkvæmdir það eru sem þeir ætla að skera niður. Að öðrum kosti væru þessar tillögur ekki vel unnar að mínu mati ef menn hefðu bara tillögur um niðurskurð án þess að hafa gert sér grein fyrir hvað það er sem menn ætla að skera niður.